Spurt og svarað

senda-spurningu
Hér á síðunni er safn algengra spurninga um fjármál og svör við þeim. Ef þú finnur ekki svar við þínum spurningum sendu okkur fyrirspurn og við munum svara þér.

Smelltu hér og skráðu spurninguna þína

 

Almennt um fjármál

Almennar spurningar sem tengjast daglegum fjármálum okkar

Er hægt að greiða aukalega inn á lán?

Svar Íbúðalánasjóðs Júní 2015:

Já það er hægt að greiða inn á lán Íbúðalánasjóðs, þó ber að athuga að lánin geta verið með uppgreiðsluþóknun.

Það er alltaf heimilt að greiða umframgreiðslu á ný ÍLS-veðbréf sem gefn eru út eftir 1. nóvember 2013.

Við sérstakar aðstæður og að fenginni umsögn stjórnar Íbúðalánasjóðs er ráðherra heimilt að ákveða að umframgreiðslur eða uppgreiðsla ÍLS-veðbréfa verði aðeins heimil gegn greiðslu þóknunar, uppgreiðslugjalds, sem jafni út að hluta eða að öllu leyti muninn á uppgreiðsluverði ÍLS-veðbréfs og markaðskjörum sambærilegs íbúðabréfs, sbr. 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál.

Uppgreiðslugjald er að hámarki:

 • 1% af umframgreiðslu ef lengri tími en eitt ár er eftir af lánstíma þegar greitt er,
 • 0,5% af greiddri fjárhæð, ef eitt ár eða skemmri tími er eftir af lánstíma þegar greitt er,
 • eða sú vaxtafjárhæð sem skuldari myndi hafa greitt kröfuhafa á tímabilinu frá greiðslu fyrir gjalddaga og til loka lánstíma  hefði ekki komið til umframgreiðslu.

Ekki er reiknað uppgreiðslugjald ef fjárhæð sem greidd er fyrir gjalddaga er lægri en 1.000.000 kr. á ársgrundvelli.

Hvað er að vera gjaldþrota?

Guðni J.Einarsson lögmaður gudni@versus.is svarar:

Ef skuldari er í þeirri stöðu að hann getur ekki staðið í skulum með skuldir sínar og honum tekst ekki að endursemja um kröfur með beinum samningum, greiðsluaðlögun eða nauðasamningi þá er hann gjaldþrota.

Það er algengur misskilningur á hugtakinu „gjaldþrota“ að halda að aðili verði gjaldþrota þegar úrskurður dómstóls um gjaldþrotaskipti er kveðinn upp. Þess vegna tala menn oft um að „láta gera sig gjaldþrota“. Staðreyndin er sú að aðili er gjaldþrota ef hann getur ekki greitt af skuldum þegar þær gjaldfalla og ekki er um tímabundna erfiðleika að ræða.

Ef skuldari er í þessari stöðu er oftast best fyrir hann að krefjast gjaldþrotaskipta á búi sínu. Ástæðan er sú að gerð var breyting á gjaldþrotalögum árið 2010 sem felur í sér að allar kröfur á hendur þrotamanninum fyrnast á tveimur árum frá skiptalokum og ekki er hægt að rjúfa fyrningu nema með dómi í þröngum undantekningartilfellum þar sem uppfylla þarf það skilyrði að líkur séu á að krafan muni innheimtast að fullu eða a.m.k. verulegu leyti á nýjum fyrningartíma og jafnframt þarf að sýna fram á sérstaka rót kröfunnar, t.d. að krafan hafi orðið til með refsiverðri háttsemi. Þetta er mikil breyting frá fyrri reglum en samkvæmt þeim fyrntust flestar kröfur á tíu árum frá gjaldþrotaskiptum og jafnframt var hægt að rjúfa fyrninguna með auðveldum hætti, s.s. með fjárnámi. Því var hægt að halda kröfum lifandi til æviloka skuldarans.

Kröfuhafar fara almennt ekki fram á gjaldþrotaskipti á búum einstaklinga og því þurfa einstaklingar sjálfir að krefjast skiptanna. Kostnaðurinn við það er 15.000 kr. gjald til dómsins auk þess sem leggja þarf fram skiptatryggingu sem er 250.000 kr. fyrir einstakling. Í byrjun árs 2014 var þó gerð sú lagabreyting að hægt er að óska eftir því að ríkið tryggi skiptakostnað. Þeir sem ekki eiga eignir til að tryggja kostnaðinn, hafa neikvæða greiðslugetu og synjunarástæður laganna eiga ekki við um geta sótt um fjárhagsaðstoðina til Umboðsmanns skuldara. Synjunarástæður eru að mestu þær sömu og synjunarástæður greiðsluaðlögunarlaga.

Í 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. segir:

Skuldari getur krafist að bú sitt verði tekið til gjaldþrotaskipta ef hann getur ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga og ekki verður talið sennilegt að greiðsluörðugleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma.“

 

Hvað er kröfuvakt?

Kröfuvakt er þjónusta innheimtufyrirtækja. Kröfuvakt innheimtir kröfur sem annars væru afskrifaðar fyrir fullt og allt. Kröfuvakt er eftirlit með skuldara því oft vænkast hagur og skuldari getur gert upp skuldir sínar.

Samkvæmt lögum er almennur afskriftatími 4 ár frá útgáfudegi reiknings. Kröfur skv. skuldabréfum, dómi eða opinberri sátt fyrnast þó á 10 árum. Hafa ber í huga að ef kröfuhafi heldur ekki fram kröfu sinni með málssókn eða skuldari viðurkennir ekki kröfuna innan tiltekins frests, telst krafan fallin niður, þ.e. fyrnd. Fyrningarfrestur byrjar að líða frá gjalddaga kröfu.  Viðurkenni skuldari kröfuna, til dæmis með því að semja um hana eða greiðir inn á hana þá byrjar nýr fyrningarfrestur (4 ár) að líða frá þeirri dagsetningu. Slit fyrningarfrests verður einnig við málssókn kröfuhafa.

Algengt er að kröfur hækki umtalsvert þegar þær fara í kröfuvakt. Skýringin er að hluta til vegna þess að innheimtufyrirtæki (t.d. Modus) rukka 50% þóknun af innheimtri upphæð.

Kröfur sem algengt er að fari í kröfuvakt eru:

 1. Kröfur sem ekki innheimtast í milliinnheimtuferli og eru of lágar til að innheimta með lögfræðiinnheimtu og kröfur sem ekki er talið vænlegt að senda í lögfræðiinnheimtu sökum eignaleysis skuldara.
 2. Uppsafnaðar kröfur í innheimtudeildum fyrirtækja sem ekki hafa fengist greiddar þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir.
 3. Kröfur sem ekki hafa fengist greiddar þrátt fyrir lögfræðiinnheimtu.

Heimild: www.modus.is

Hvað er tímabundinn skuldavandi?

Guðni J.Einarsson lögmaður gudni@versus.is svarar:

Skuldavandi getur verið tímabundinn, þ.e. útgjöld eru til skamms tíma hærri en vanalega eða tekjur tímabundið lægri, t.d. vegna kostnaðarsamrar viðgerðar á bifreið, óumflýjanlegra kaupa á þvottavél, skammtímaatvinnuleysis eða fæðingarorlofs.

Við slíkar aðstæður geta tiltölulega einfaldar aðgerðir leyst vandann, s.s. að semja um að fella niður nokkra gjalddaga af láni og færa þá aftur fyrir. Þá er jafnframt auðveldara að skera útgjöld verulega niður til skamms tíma heldur en til langs tíma og auka þannig greiðslugetuna. Þannig er hægt til nokkurra mánaða að fella nánast alveg út útgjöld vegna fatakaupa, tannlækna, endurnýjunar heimilistækja og húsgagna, svo eitthvað sé nefnt. Það þarf að gæta vel að muninum á því að bregðast við skammtímavanda og langtímavanda með niðurskurði útgjalda, því niðurskurður sem getur verið raunhæfur til 3-6 mánaða getur verið algjörlega óraunhæfur til lengri tíma. Mikilvægt er að bregðast strax við vandanum því óverulegur skammtímavandi getur fljótt orðið óviðráðanlegur vegna þess gríðarlega kostnaðar sem leggst á skuldir ef þær fara í vanskil.

Besta leiðin til að forðast skuldavanda vegna tímabundinna aðstæðna er að eiga varasjóð til að bregðast við verulegum útgjöldum eða tekjumissi til skamms tíma. Jafnvel lítill sjóður getur komið alfarið í veg fyrir vandann.

Hvað er varanlegur skuldavandi?

Guðni J.Einarsson lögmaður gudni@versus.is svarar:

Skuldavandi er varanlegur, þ.e. útgjöld eru of há eða tekjur of lágar,  þegar ekki er hægt að bregðast við vandanum á raunhæfan hátt með hækkun tekna eða lækkun útgjalda.

Í þessari stöðu þarf að leita annarra úrræða. Það er ekki raunhæft að vinna langa vinnudaga og neita sér um eðlilega þjónustu eins og tannlækni eða sleppa því að versla föt og geta samt ekki náð endum saman eða greitt niður skuldavanda.

Fyrsta skrefið þarf alltaf að vera að fá heildarmynd af stöðunni, þ.e. nota verkefni Skuldlaus.is til að skrá tekjur, útgjöld, eignir og skuldir.

Hægt er að fá ókeypis greiðsluerfiðleikamat og ráðgjöf hjá Umboðsmanni skuldara, en sótt er um ráðgjöf á www.ums.is. Það sem ávinnst með slíku mati er í fyrsta lagi að ljóst verður hversu umfangsmikill vandinn er, í öðru lagi fær viðkomandi ráðgjöf um þær leiðir sem eru færar til úrbóta og í þriðja lagi eru kröfuhafar oft frekar fúsir til raunhæfra samninga þegar þeir sjá stöðu skuldarans svart á hvítu. Tilhneiging innheimtuaðila sem hefur ekki slíkt yfirlit er oft sú að knýja fram samning um hærri greiðslur en skuldarinn er fær um að greiða.

Hvað eru vextir?

Vextir er gjald sem greitt er fyrir lán á fjármagni.

Útlánsvextir: Þegar til dæmis banki eða fjármálastofnun lánar einstaklingi pening þá greiðir einstaklingurinn útlánsvexti sem gjald fyrir lánið.

Innlánsvextir: Þegar til dæmis einstaklingur leggur pening inn á bankareikning þá er hann að lána fjármálastofnuninni fé sitt. Þá greiðir fjármálastofnunin innlánsvexti sem gjald fyrir lánið.

Lög um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.

Hvað má 75% öryrki hafa í heildartekjur áður en örorkubætur viðkomandi byrja að skerðast?

Svar Tryggingastofnunar Ríkisins júní 2015:

Tekjum sem hafa áhrif á greiðslur frá Tryggingastofnun er skipt upp í fernt:

Atvinnutekjur (launatekjur)

 1. Tekjur úr lífeyrissjóði
 2. Fjármagnstekjur (vextir af bankabókum, arður af hlutabréfum, leigutekjur og fl.)
 3. Tekjur úr séreignasjóði.

Hér getur þú séð hvernig þessar mismunandi tekjur hafa áhrif: http://www.tr.is/media/fjarhaedir/Utreikningur-lifeyris-og-tengdra-bota-januar-2015_3.pdf

Í stuttu máli sagt þá má sá, sem fær örorkugreiðslur frá TR, hafa 1.315.200 kr. árlega í atvinnutekjur án þess að það hafi nokkur áhrif.

Sá hinn sami má hafa 328.800 kr. árlega í tekjur úr lífeyrissjóði án þess að það skerði.

Hann má jafnframt hafa 98.640 í fjármagnstekjur á ári.

Tekjur úr séreignasjóði hafa engin áhrif þannig að það er óþarfi að hugsa um þær.

Hver er munur á tekjutengingu á tilfallandi atvinnu/launuðum verkefnum og á föstu hlutastarfi?

Svar Tryggingastofnunar Ríkisins júní 2015:

Það er enginn munur tekjum af tilfallandi atvinnu og föstu starfi. Tekjur af atvinnu eru alltaf flokkaðar sem slíkar. Það skiptir engu máli hvers konar starf eða verkefni er um að ræða. Það sem ræður er hvernig Ríkiskattstjóri flokkar og skilgreinir tekjurnar.

Hvernig greiði ég inn á íbúðalán?

(Svar af vef Íbúðarlánasjóðs: http://ils.is/einstaklingar/ibudalan/hagnytar-upplysingar-um-ils-vedbref/innagreidslur-a-lan/)

Þegar greitt er inn á lán fer greiðslan inn á eftirfarandi þætti í þessari röð:

1. til greiðslu á vanskilum sem skiptast á eftirfarandi hátt:

 •  kostnaður
 •  dráttarvextir
 •  vextir
 •  afborgun á nafnverði og áfallnar verðbætur af því

2. til greiðslu áfallinna vaxta.
3. til greiðslu á nafnverði og áföllnum verðbótum af því.

Höfuðstóll verðtryggðra lána hjá Íbúðalánasjóði samanstendur af nafnverðseftirstöðvum og áföllnum verðbótum. Þegar greitt er inn á höfuðstól þessara lána skiptist greiðslan í réttu hlutfall á þessa tvo þætti, þ. e. nafnverðseftirstöðvar og áfallnar verðbætur.

Dæmi: Eftirstöðvar láns eru 1.000.000 þar sem nafnverðseftirstöðvar eru 700.000 og áfallnar verðbætur 300.000. Við innágreiðslu fara 70% af greiðslunni inn á nafnverðseftirstöðvar og 30% inn á áfallnar verðbætur.

Til þess að greiða niður höfuðstól láns þarf fyrst að vera búið að gera upp öll vanskil, alla dráttarvexti og alla áfallna vexti. Þar af leiðandi nær lántaki alltaf bestri nýtingu á innáborgun sinni með því að greiða á gjalddaga lánsins, eftir að búið er að greiða gjaldfallna afborgun. Margir eru með sjálfvirka greiðslu á lánum sínum t.d. með því að vera í greiðsluþjónustu hjá bönkum. Þá eru allir gjalddagar greiddir á eindaga, sem hjá Íbúðalánasjóði er 3 dögum eftir gjalddaga. Ef óskað er eftir að greitt sé aukalega inn á lánið getur tvennt gerst:

 1. Aukagreiðslan er á gjalddaga lánsins, en afborgun greidd á eindaga. Þá fer greiðslan fyrst inn á þann gjalddaga sem stendur ógreiddur í greiðslukerfi RB og afgangurinn (ef aukagreiðslan er hærri en viðkomandi regluleg greiðsla) fer inn á höfuðstól lánsins. Þegar kerfið ætlar síðan að greiða af láninu á eindaga er enginn ógreiddur gjalddagi í kerfinu og þar af leiðandi fer engin greiðsla inn á það þann dag. Með þessu móti er lántakinn að greiða minna inn á lánið en hann ætlaði sér.
 2. Aukagreiðslan er á eindaga. Nú fer greiðslan á reglulegri afborgun fram og síðan er greidd aukaafborgunin. En þar sem aukagreiðslan er ekki framkvæmd á gjalddaga lánsins eru fallnir vextir á lánið frá síðasta gjalddaga fram að eindaga, eða í 3 daga og greiðast þeir vextir því af aukagreiðslunni og síðan fer afgangurinn (að því gefnu að aukagreiðslan sé hærri en áföllnu vextirnir) inn á höfuðstól. Aftur verður aukagreiðsla lántakandans inn á höfuðstól lánsins minni en hann hafði hugsað sér. Að vísu nýtist þetta að hluta hjá honum þar sem greiðslan á næsta gjalddaga verður aðeins lægri þar sem hann var búinn að greiða áfallna vexti fyrir fyrstu 3 daga vaxtatímabilsins, þannig að greiðslan lækkar sem því nemur, en það er þá greiðsla á vöxtum en ekki greiðsla á höfuðstól til lækkunar á framtíðargreiðslubyrði lánsins eins og lántaki hafði hugsað sér.

Betri fjármál

Spurt og svarað um efni í verkefnabókinni Betri fjármál

Af hverju skrá öll útgjöldin?

Skráning útgjalda er grunnurinn að því að geta bætt fjármálin. Það má segja að skráningin sé til að finna hvar við erum stödd áður en við leggjum af stað. Ef þú veist ekki hvar þú ert þá er erfiðara að skipuleggja ferðalagið.

Skráðu öll fjármálin – ekki bara útgjöldin. Þannig færðu heildarmynd yfir stöðu þína og getur betur ákveðið hvernig þú vinnur að betri fjármálum.

Af hverju skrá öll útgjöldin?

Svar: Til að fá yfirsýn yfir hvert peningarnir okkar eru að fara.

Skráning útgjalda er grunnurinn að því að geta bætt fjármálin. Við söfnum upplýsingum um hvert peningarnir okkar eru að fara. Ef þú veist ekki hvert peningarnir þínir eru að fara þá er erfiðara að taka ákvarðanir um hvernig við lögum fjárhagsstöðu okkar. Það má segja að skráningin sé til að finna hvar við erum stödd áður en við leggjum af stað. Ef þú veist ekki hvar þú ert staddur/stödd þá er erfiðara að skipuleggja ferðalagið.

Skráðu öll fjármálin – ekki bara útgjöldin. Þannig færðu heildarmynd yfir stöðu þína og getur betur ákveðið hvernig þú vinnur að betri fjármálum.

Hvað er framfærsluvandi?

Svar: Framfærsluvandi er þegar tekjur eru ekki nægar til að lifa daglegu lífi.

Framfærsla er kostnaður á nauðsynlegum lífsgæðum einstaklings eða heimilis. Þessi lífsgæði eru meðal annars húsaleiga, fatnaður, matur, menntun, heilsugæsla og það sem telja má sem grunnnauðsynjar einstaklingaSé einstaklingur í framfærsluvanda og getur ekki framfleytt sér án aðstoðar á hinn sami stjórnarskrárvarinn rétt til að leita sér aðstoðar, til dæmis með fjárhagsaðstoð félagsþjónustu sveitarfélaga.

Nánar: Fjárhagsvandi

Hvað er greiðsluvandi?

Svar: Greiðsluvandi er þegar tekjur eru ekki nægar til að borga afborganir lána og lifa daglegu lífi.

Tekjurnar eru lægri en samanlagður kostnaður nauðsynja og afborgana af lánum. Vegna yfirskuldsetninga skortir fjármagn til að greiða fyrir nauðsynleg lífsgæði því tekjur sem ættu að fara í nauðsynar fara í að greiða af yfirskuldsetningum. Einstaklingur eða heimili gætu því staðið í skilum með skuldbindingar og afborganir lána en skort nauðsynjar til heimilisins.

Í tilfellum greiðsluvanda eru úrræði í boði fyrir einstaklinga eins og Umboðsmaður skuldara og önnur sértæk úrræði fjármálastofnana og stjórnvalda.

sjá nánar: Fjárhagsvandi

Hvað eru útgjöld?

Svar: Útgjöld eru allar greiðslur sem við framkvæmum.

Við notum peninga til daglegra nota. Við borgum fyrir lífsgæði eins og til dæmis húsnæði, mat, föt, og afþreyingu. Allar greiðslur sem greiðum frá okkur eru útgjöld.

Hvenær á að búa til útgjaldaáætlun fyrir heimilið?

Svar: Þegar þú veist hvað það kostar þig að lifa í einn mánuð.

Áður en við getum tekið ákvörðun um hve mikinn pening við ætlum að nota þá þurfum við að vita hve mikinn pening við notum. Þess vegna skráum við útgjöld í að minnsta kosti einn mánuð til þess að vita hvað við kostum á einum mánuði. Þegar þú veist hvað þú eyddir miklu t.d. í mat í síðasta mánuði þá er auðvelt að áætla að þú ætli að nota sömu upphæð aftur þennan mánuð. Þú getur líka ákveðið hvort og hve mikið þú getur hækkað eða lækkað upphæð sem þú notar í matarpening.

Hvernig spara ég peninga?

Svar: Við tökum aukapeningana okkar og leggjum þá inn á sparnaðarreikning eða geymum á öruggum stað.

Aukapeningur er allur peningur sem við notum ekki í mánaðarleg útgjöld og afborganir skuldbindinga. Þennan aukapening spörum við þangað til við veljum að nota hann.

Ef þú átt ekki aukapening þá þarftu að hagræða og endurskoða tekjur og útgjöld til þess að eignast aukapening. Hér á skuldlaus.is eru verkefni sem hjálpa þér að fá yfirsýn yfir hvaða tekjur þú færð og hver útgjöldin þín eru. Með því að endurskoða hvert peningurinn fer og hagræða í daglegum útgjöldum þá er hægt að taka til hliðar aukapeninga. Til dæmis ef þú hættir að borða sælgæti, hættir að kaupa skyndibita, eða segir upp sjónvarpsáskriftum og velur að geyma peninginn sem annars hefði farið í þessar vörur og þjónustu þá áttu aukapening til að spara.

Það er ekkert lágmark til fyrir hve hár sparnaður á að vera. Eina sem þarf er að taka aukapeningana og geyma þá – spara.