Hvernig greiði ég inn á íbúðalán?

panta-bok-fritt

(Svar af vef Íbúðarlánasjóðs: http://ils.is/einstaklingar/ibudalan/hagnytar-upplysingar-um-ils-vedbref/innagreidslur-a-lan/)

Þegar greitt er inn á lán fer greiðslan inn á eftirfarandi þætti í þessari röð:

1. til greiðslu á vanskilum sem skiptast á eftirfarandi hátt:

  •  kostnaður
  •  dráttarvextir
  •  vextir
  •  afborgun á nafnverði og áfallnar verðbætur af því

2. til greiðslu áfallinna vaxta.
3. til greiðslu á nafnverði og áföllnum verðbótum af því.

Höfuðstóll verðtryggðra lána hjá Íbúðalánasjóði samanstendur af nafnverðseftirstöðvum og áföllnum verðbótum. Þegar greitt er inn á höfuðstól þessara lána skiptist greiðslan í réttu hlutfall á þessa tvo þætti, þ. e. nafnverðseftirstöðvar og áfallnar verðbætur.

Dæmi: Eftirstöðvar láns eru 1.000.000 þar sem nafnverðseftirstöðvar eru 700.000 og áfallnar verðbætur 300.000. Við innágreiðslu fara 70% af greiðslunni inn á nafnverðseftirstöðvar og 30% inn á áfallnar verðbætur.

Til þess að greiða niður höfuðstól láns þarf fyrst að vera búið að gera upp öll vanskil, alla dráttarvexti og alla áfallna vexti. Þar af leiðandi nær lántaki alltaf bestri nýtingu á innáborgun sinni með því að greiða á gjalddaga lánsins, eftir að búið er að greiða gjaldfallna afborgun. Margir eru með sjálfvirka greiðslu á lánum sínum t.d. með því að vera í greiðsluþjónustu hjá bönkum. Þá eru allir gjalddagar greiddir á eindaga, sem hjá Íbúðalánasjóði er 3 dögum eftir gjalddaga. Ef óskað er eftir að greitt sé aukalega inn á lánið getur tvennt gerst:

  1. Aukagreiðslan er á gjalddaga lánsins, en afborgun greidd á eindaga. Þá fer greiðslan fyrst inn á þann gjalddaga sem stendur ógreiddur í greiðslukerfi RB og afgangurinn (ef aukagreiðslan er hærri en viðkomandi regluleg greiðsla) fer inn á höfuðstól lánsins. Þegar kerfið ætlar síðan að greiða af láninu á eindaga er enginn ógreiddur gjalddagi í kerfinu og þar af leiðandi fer engin greiðsla inn á það þann dag. Með þessu móti er lántakinn að greiða minna inn á lánið en hann ætlaði sér.
  2. Aukagreiðslan er á eindaga. Nú fer greiðslan á reglulegri afborgun fram og síðan er greidd aukaafborgunin. En þar sem aukagreiðslan er ekki framkvæmd á gjalddaga lánsins eru fallnir vextir á lánið frá síðasta gjalddaga fram að eindaga, eða í 3 daga og greiðast þeir vextir því af aukagreiðslunni og síðan fer afgangurinn (að því gefnu að aukagreiðslan sé hærri en áföllnu vextirnir) inn á höfuðstól. Aftur verður aukagreiðsla lántakandans inn á höfuðstól lánsins minni en hann hafði hugsað sér. Að vísu nýtist þetta að hluta hjá honum þar sem greiðslan á næsta gjalddaga verður aðeins lægri þar sem hann var búinn að greiða áfallna vexti fyrir fyrstu 3 daga vaxtatímabilsins, þannig að greiðslan lækkar sem því nemur, en það er þá greiðsla á vöxtum en ekki greiðsla á höfuðstól til lækkunar á framtíðargreiðslubyrði lánsins eins og lántaki hafði hugsað sér.

header-banner