Hvað er tímabundinn skuldavandi?

bok-ofan-post

Guðni J.Einarsson lögmaður gudni@versus.is svarar:

Skuldavandi getur verið tímabundinn, þ.e. útgjöld eru til skamms tíma hærri en vanalega eða tekjur tímabundið lægri, t.d. vegna kostnaðarsamrar viðgerðar á bifreið, óumflýjanlegra kaupa á þvottavél, skammtímaatvinnuleysis eða fæðingarorlofs.

Við slíkar aðstæður geta tiltölulega einfaldar aðgerðir leyst vandann, s.s. að semja um að fella niður nokkra gjalddaga af láni og færa þá aftur fyrir. Þá er jafnframt auðveldara að skera útgjöld verulega niður til skamms tíma heldur en til langs tíma og auka þannig greiðslugetuna. Þannig er hægt til nokkurra mánaða að fella nánast alveg út útgjöld vegna fatakaupa, tannlækna, endurnýjunar heimilistækja og húsgagna, svo eitthvað sé nefnt. Það þarf að gæta vel að muninum á því að bregðast við skammtímavanda og langtímavanda með niðurskurði útgjalda, því niðurskurður sem getur verið raunhæfur til 3-6 mánaða getur verið algjörlega óraunhæfur til lengri tíma. Mikilvægt er að bregðast strax við vandanum því óverulegur skammtímavandi getur fljótt orðið óviðráðanlegur vegna þess gríðarlega kostnaðar sem leggst á skuldir ef þær fara í vanskil.

Besta leiðin til að forðast skuldavanda vegna tímabundinna aðstæðna er að eiga varasjóð til að bregðast við verulegum útgjöldum eða tekjumissi til skamms tíma. Jafnvel lítill sjóður getur komið alfarið í veg fyrir vandann.

bokhaskoalprent-ofan-post