Hvað er að vera gjaldþrota?

namskeid

Guðni J.Einarsson lögmaður gudni@versus.is svarar:

Ef skuldari er í þeirri stöðu að hann getur ekki staðið í skulum með skuldir sínar og honum tekst ekki að endursemja um kröfur með beinum samningum, greiðsluaðlögun eða nauðasamningi þá er hann gjaldþrota.

Það er algengur misskilningur á hugtakinu „gjaldþrota“ að halda að aðili verði gjaldþrota þegar úrskurður dómstóls um gjaldþrotaskipti er kveðinn upp. Þess vegna tala menn oft um að „láta gera sig gjaldþrota“. Staðreyndin er sú að aðili er gjaldþrota ef hann getur ekki greitt af skuldum þegar þær gjaldfalla og ekki er um tímabundna erfiðleika að ræða.

Ef skuldari er í þessari stöðu er oftast best fyrir hann að krefjast gjaldþrotaskipta á búi sínu. Ástæðan er sú að gerð var breyting á gjaldþrotalögum árið 2010 sem felur í sér að allar kröfur á hendur þrotamanninum fyrnast á tveimur árum frá skiptalokum og ekki er hægt að rjúfa fyrningu nema með dómi í þröngum undantekningartilfellum þar sem uppfylla þarf það skilyrði að líkur séu á að krafan muni innheimtast að fullu eða a.m.k. verulegu leyti á nýjum fyrningartíma og jafnframt þarf að sýna fram á sérstaka rót kröfunnar, t.d. að krafan hafi orðið til með refsiverðri háttsemi. Þetta er mikil breyting frá fyrri reglum en samkvæmt þeim fyrntust flestar kröfur á tíu árum frá gjaldþrotaskiptum og jafnframt var hægt að rjúfa fyrninguna með auðveldum hætti, s.s. með fjárnámi. Því var hægt að halda kröfum lifandi til æviloka skuldarans.

Kröfuhafar fara almennt ekki fram á gjaldþrotaskipti á búum einstaklinga og því þurfa einstaklingar sjálfir að krefjast skiptanna. Kostnaðurinn við það er 15.000 kr. gjald til dómsins auk þess sem leggja þarf fram skiptatryggingu sem er 250.000 kr. fyrir einstakling. Í byrjun árs 2014 var þó gerð sú lagabreyting að hægt er að óska eftir því að ríkið tryggi skiptakostnað. Þeir sem ekki eiga eignir til að tryggja kostnaðinn, hafa neikvæða greiðslugetu og synjunarástæður laganna eiga ekki við um geta sótt um fjárhagsaðstoðina til Umboðsmanns skuldara. Synjunarástæður eru að mestu þær sömu og synjunarástæður greiðsluaðlögunarlaga.

Í 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. segir:

Skuldari getur krafist að bú sitt verði tekið til gjaldþrotaskipta ef hann getur ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga og ekki verður talið sennilegt að greiðsluörðugleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma.“

 

Untitled-1