Er greidd skuld glatað fé?

namskeid

Samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup er rúmlega helmingur landsmanna í fjárhagsvanda og getur þess vegna ekki brugðist við óvæntum útgjöldum. Rúmlega 35 prósent ná endum saman, 11 prósent ekki.

Þetta þýðir einfaldlega það að ef þú ert ekki í alvarlegum fjárhagsvanda þá er einhver nákominn þér að glíma við það.

Tæpum helmingi landsmanna finnst erfitt að tala um fjármál. Við berum fjárhagsvanda okkar í hljóði og tökum á honum í einsemd. En þessi nöturlega staðreynd á ekki að vera svona. Við eigum ekki að bera innra með okkur óöryggi og kvíða vegna þess að við náum ekki endum saman eða getum ekki lifað innihaldsríku lífi. Við eigum rétt á að líða vel þrátt fyrir skuldastöðu, þrátt fyrir lág laun, þrátt fyrir samfélagsstöðu. Við eigum ekki að skammast okkar fyrir það að vera eins og helmingur þjóðarinnar.

Hugarró og öryggi í fjármálum er nær en marga grunar. Rannsóknir sýna að þeir sem halda einfalda dagbók um fjármálin sín og hegðun ná fyrr stjórn á daglegu lífi en þeir sem ekki halda dagbók. Verkefnabókin mín, Betri fjármál, er þess vegna sérhönnuð til þess að ná tökum á líðan okkar gagnvart fjármálum áður en við förum að vinna okkur út úr stöðunni sem við lifum við í dag. Aðalatriðið við að ná fjárhagslegri heilsu er að laga þig sem persónu og bæta viðhorf þín til fjármálanna.

Þegar við bætum fjármálin er mikilvægt að hugsa fyrst um okkur sjálf. Fjármálin lagast þegar við erum tilbúin til að laga þau – ekki fyrr.

Stærsta skuldin í lífi margra sem ég aðstoða í fjármálameðferð er skuld við sjálfan sig. Margra ára gömul skuld sem vex og vex með tímanum. Ég er að tala um líðan. Í dagsins önn neitum við okkur um það sem okkur líkar best við vegna þess að við erum að standa í skilum við aðra. Gönguferð á Hornstrandir, tónleikar, utanlandsferð, leikhús, eða bara nudd. Við eigum öll okkar drauma um upplifun sem okkur finnst við aldrei munum ná vegna þess að við skuldum of mikið.

Þetta er bull. Settu þig í fyrsta sæti. Borgaðu þér eins og hverjum öðrum lánardrottni um hver mánaðamót. Greiddu inn á skuldina við þig og farðu svo og láttu drauminn þinn rætast.

Greidd skuld er ekki alltaf glatað fé. Hagræddu í daglegum innkaupum, hættu að borga áskrift á sjónvarpsstöðvar sem þú horfir lítið á, seldu dótið í geymslunni sem þú hefur ekki notað lengi og munt ekki nota. Sparaðu pening og greiddu þér skuldina við þig.

Ég get lofað þér því að ef þú greiðir inn á þessa skuld þá mun þér ganga betur að greiða allar aðrar skuldir.

bokhaskoalprent-ofan-post