Ég fæ örugglega nei!!

Untitled-1

Í hröðum og uppteknum heimi er margt sem við vinnum að. Við eigum í samskiptum við fjölmarga kunnuga sem og ókunnuga, til dæmis við vinnu, nám og áhugamál okkar. Suma eigum við auðvelt með að eiga í samskiptum við og aðra óttumst við eða lítum upp til. Þegar við erum að vinna í fjármálunum okkar erum við oft að opna fyrir leyndarmál, lygi og feluleiki og því eigum við oft erfiðara með að rjúfa þögnina og tala um vanda okkar og skuldir. Það vill því oft bregða við að við forðumst eða sleppum að bera upp fyrirspurnir og ósk um aðstoð.  Til að sleppa við að upplifa ótta og minnimáttarkennd gætum við fallið í þá gryfju þykja betra að svara neitandi fyrirfram:

  • Nei, hann/hún hefur ekki tíma!
  • Nei, þetta er fáránleg hugmynd!
  • Af hverju ætti hann/hún að vilja hlusta á mig?
  • Það er örugglega fullt af fólki með sömu hugmynd.

Eina sem get og ætla að segja er að þú átt aldrei að leggja öðrum orð í munn. Láttu aðra svara beint og fyrir sig.

Sem nýlegt dæmi um mig  minnist ég þess þegar ég fékk þá ágætis hugmynd að gaman væri að fá Árna Sigfússon Bæjarstjóra í Reykjanesbæ til að koma og taka þátt í námskeiði sem ég var með fyrir atvinnuleytendur. Nánar til tekið var hugmyndin að fá Árna til að koma og leika starfsmannastjóra og taka viðtöl við fólkið í hópnum mínum. Flestir sem ég nefndi þessa hugmynd við sögðu að það væri frábært ef hann gæti komið, að þetta gæti verið frábær hugmynd og svo framvegis. Einn vinur minn spurði mig hvort ég héldi að hann hefði tíma í svona lagað, hann væri nú bæjarstjórinn.

En í stað þess að svara fyrir Árna og segja við sjálfan mig að hann gæti örugglega ekki mætt og að hann myndi segja nei, þá sendi ég honum tölvupóst. Ég skýrði mál mitt vel og bauð honum að taka þátt. Og viti menn, hann samþykkti. Árni mætti á námskeiðið og úr varð stórskemmtilegt námskeið fyrir alla.

Mín ráðlegging til þín er því einfaldlega sú að forðast það að svara fyrirfram neitandi fyrir annara hönd því við gætum fengið já. Þetta á við í öllum samskiptum og sama við hvern við þurfum að tala. Það fólk sem við viljum fá aðstoð eða samtal við eiga að svara sjálf og í beinum samskiptum við okkur.

Ef viðkomandi svarar neitandi þá er það bara staðfesting að þetta ákveðna samtal eða  aðstoð verði ekki. Við stöndum á sama stað og höfum í raun engu tapað. Nei-ið gefur okkur því tækifæri til þess að tala við einhvern annan.

Við höfum svo margt að græða ef viðkomandi segir já. Þess vegna verðum við líka að vera viðbúin því að fá jákvæð svör.

Gangi þér vel!

panta-bok-fritt