Borgaralaun – Lausn eða bjarnagreiði?

panta-bok-fritt

Hugmyndir um borgaralaun líkt og til dæmis Píratar hafa lagt fram og rætt er göfug og flott hugmynd um að jafna hlut fólks. Í stuttu máli er hugmyndin sú að allir fái sömu upphæð greidda frá ríkinu, óháð stöðu sinni í samfélaginu. Þar með verði eldra og flókið almannatryggingakerfi Tryggingastofnunar lagt af. Fólk geti jafnframt kosið að minnka við sig vinnu, til dæmis barnafólk og eldri borgarar. Svo eigi fleiri kost á að fara í nám því borgaralaun myndu koma í stað námslán. Aðrir fá launahækkun.

Borgaralaun eru sett fram til þess að enginn þurfi að uppfylla skilyrði til þess eins að fá grunnframfærslu. Í dag eru mörg skilyrði fyrir því að fá atvinnuleysisbætur, fjárhagsaðstoð sveitarfélags, endurhæfingarlífeyri eða örorku. Borgaralaun munu eyða þessum skilyrðum og fólk geti sleppt tökum á fjárhagslegu óöryggi og byrjað að sinna því sem sinna þarf.

Eru borgaralaun lausn eða bjarnagreiði?

Borgaralaun tryggja þeim lægst settu framfærslu en kemur sem bónus ofan á tekjur annarra landsmanna. Hvað gerist þegar allir landsmenn eldri en 18 ára fá sem nemur lífeyrisgreiðslum frá ríkinu í bónus? Innkoman hækkar um tugi prósent. Fyrir flesta landsmenn er þetta launahækkun. Þetta þýðir líka verðbólga. Allt mun hækka á Íslandi. Fasteignaverð, matvara, húsaleiga og öll okkar útgjöld munu hækka vegna þess að kaupmenn hækka verð vegna þess að þegar við eigum meiri pening á milli handanna þá höfum við efni á að borga hærra verð. Verðlag vex í auknum kaupmætti. Og við munum borga hærra verð vegna þess að við getum borgað hærra verð.

Hvar standa þá öryrkjar, ellilífeyrisþegar, atvinnulausir og þiggjendur fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga? Til að byrja með yrði þetta umtalsverð bót á þeirra stöðu. Lágmarkslífeyrir öryrkja myndi fara úr 230 þúsund krónum í 300 þúsund krónur á mánuði. En þar við situr. Þessi hópur fær ekki hærri upphæð því að borgaralaun koma í staðinn fyrir barnabætur, húsnæðisuppbót og allar aðrar uppbætur.

Allir aðrir fá 300 þúsund króna tekjuhækkun, ofan á núverandi laun. Í töflunni hér fyrir neðan má sjá að með tilkomu borgaralauna hækka bætur Palla sem er einstæður öryrki um 31% en laun Sigga bróður hans hækka um 107%.

fyrir eftir hækkun
Palli öryrki   229.475 ISK   300.000 ISK 31%
Siggi verkamaður   280.000 ISK   580.000 ISK 107%

Þetta er aðeins eitt dæmi um tekjumun en þarna sé ég að kerfið sem átti að styrkja bótaþega veikir þá því aðrir fá hlutfallslega meiri hækkun tekna.

Atvinnurekandinn græðir mest

Ég hef ekki legið yfir þessari hugmyndafræði lengi en mín sýn á þessa hugmynd er að hún virkar ekki til að bæta velferðar- og félagslega kerfið. Hefðir íslendinga og venjur eru að horfa ekki á útgjöld. Við erum tekjumiðað þjóðfélag og við leggjum áherslur á að hækkja tekjur. Þegar tekjur hækka þá ríkur verð upp. Kaupmenn vöru og þjónustu eru eldsnöggir að hækka verð þegar kaupmáttur leyfir það.

Borgaralaun koma sér líklega best fyrir atvinnulífið sem niðurgreiðsla á launum. Atvinnulífið mun geta lækkað launakostnað sinn með því að bjóða lægra launuð störf og þá mætti segja að borgaralaunin renni í vasa atvinnurekandans. Og með tilkomu fleirri starfa á lægri launum verða til fleiri einstaklingar háðir fjárhagsaðstoð því þá verða lægst launuðu einstaklingarnir raunverulega háðir Borgaralaunum.

Það er aldrei gott að vera háður framfærslu annarra. Slíkir einstaklingar hafa skerta ákvarðanatöku, minni ábyrgð, og háðir skipulagi annarra. Borgaralaun munu því að mínu mati ekki ná sínu markmiði að jafna hlut fólks heldur auka ójöfnuð og hefta fólk frekar en að frelsa það.

Hvað er til ráða?

Af því við erum tekjumiðað samfélag þá erum við sífelt að horfa á innkomu. Hvað við erum með í bætur og ertu að svindla? Svindlhugafarið á rætur sínar í innkomumiðuðu samfélagi því það er hvati fyrir fólk að hækka bætur eða laun til að eiga efni á betra lífi.

Mín hugmynd er að hugsa fyrst og fremst um útgjöld. Við eigum að heimta lægri húsaleigu, við eigum að heimta lægra húsnæðisverð, viðeigum að heimta lægri vexti og kostnað í bönkum, við eigum að heimta lægra eldsneytisverð og við eigum að heimta lægra matarverð. Við eigum að heimta að öll okkar útgjöld lækki. Tekjur skipta ekki máli í þessi tilfelli. Útgjöld skipta máli og þau eiga að lækka.

Ef stjórnvöld vilja bæta samfélagið þá eiga þau að berjast fyrir lægri útgjöldum. Þau eiga að bæta skattkerfið svo útgjöld okkar lækki. Til dæmis gera núverandi bótakerfi skattfrjálst og hækka tekjumörk öryrkja og lífeyrisþega svo þau geti tekið virkan þátt á atvinnulífinu og samfélaginu með hlutastörfum. Þau eiga að setja verslun og þjónustu skorður og þrýsta á að lækka verð.

Tekjumiðaðar hugmyndir eru að mínu mati kraftlitlar ef við ætlum að hafa uppbyggjandi fjárhagsleg áhrif á velferð og samfélag. Tekjuhugarfarið virkar ekki þar. Tekjuhugarfarið er eins og ég sé það kapítalísk hugsun, auðvaldshugsun. Hugafar þess að þiggja.

Almenningur á að hugsa um útgjöld. Við eigum að leggja áherslu á allan pening sem frá okkur fer. Við eigum að passa að missa sem minnstan pening – Ekki hugsa um að auka tekjur af því við missum svo mikinn pening.

Mín skoðun er að Borgaralaunahugmyndin mun ekki ná markmiði sínu. Hugsjónin er göfug og flott en afleiðingarnar munu vera verri fyrir alla. Verðlag mun hækka, laun munu lækka, og fleiri verða háðir fjárhagsstyrk annarra.

 

 

bokhaskoalprent-ofan-post