Biðin eftir skjaldborginni

bok-ofan-post

Mikil umræða er þessa dagana á veraldarvefnum þess efnis að lán í Noregi séu mjög frábrugðin þeim lánum sem við eigum að venjast á Íslandi. Dæmi eru birt þess efnis að 24 milljóna lán í Noregi verði rúmar 34 milljónir með öllum vöxtum og kostnaði en á Íslandi endi íbúðalánasjóðslán í 120 milljónum greiddum. Þetta hefur vakið mikla athygli og vakið marga til reiði. Algengar athugasemdir á samfélagsmiðlum eru á þá leið að bankarnir og ríkisstjórn séu ekki að standa sig. En eigum við að bíða eftir þeim? Eigum við að sitja hljóð og bíða þess að skjaldborgin verði reist?

Fjórflokkarnir og fjórbankarnir eru nánast í sömu sporum og daginn fyrir hrun. Engin mikilvæg breyting hefur orðið á starfi Alþingis sem bætir hag landsmanna og engin breyting hefur orðið í starfsemi bankanna.

Bankarnir eru þjónustustofnanir. Okkur almenningi er ekki skylt að versla við þá nema ef við gerum bindandi samninga um slík viðskipti. Lán eru dæmi um bindandi viðskipti. En hvað gerist þegar lánið er fullgreitt og þessum samningi lýkur? Þá mátt þú gera það sem þú vilt.

Íslenska lánaumhverfið hefur þróast á þennan stað sem við þekkjum í dag af þremur ástæðum.

1) Allir aðrir gera þetta.

2) Við vitum ekki betur.

3) Lánastofnanir bjóða upp á það.

Í grunninn eru það ég og þú sem ráðstöfum peningunum okkar, enginn annar. Breytingarnar í samfélaginu verða þegar við breytum því hvert peningarnir okkar fara. Árin fyrir hrun óx bólan margnefnda vegna þess hvernig við ráðstöfuðum peningunum okkar. Eftir hrun er sami vani á hvert peningarnir fara. Vanda ríkisins má rekja til þess hvernig skattpeningunum er ráðstafað og öryrkjar og aðrir í bótakerfinu finna vel fyrir því hvernig ríkið misráðstafar skattfé.

Á heimilinu er auðvelt að hagræða útgjöldum. Við hættum að eyða í vitleysu og eyðum í það sem þarf. Við kaupum ekki snjallsíma heldur greiðum fyrir mat eða greiðum niður vanskil. Þannig breytum við lífi okkar með því að breyta því hvert peningurinn fer. Óöryggi hverfur og sjálfstraust okkar vex því við tókum ákvörðun sem bætti líf okkar.

Við þurfum að færa þessa hugsun um rekstur heimilis á samfélagslegt plan. Þannig að hvernig samfélagið breyti því hvert peningurinn fer þá hafi það áhrif á samfélagslegt líf. Alþingi þarf að gera sömu hugarfarsbreytingar og við þurfum bankastofnanir sem styðja við okkar breytingar. Breytingar á fjármagnsflæði breytir okkar daglega lífi.

Það hefur engin áhrif að bíða eftir að bankar og þing geri einhliða breytingar okkur í hag. Þau hafa fengið 7 ár. Tími okkar er kominn til að gera breytingar sem eru okkur í hag. Taktu þátt í vitundarvakningunni og skoðaðu hvert peningarnir þínir fara. Taktu til í þínu heimilisbókhaldi með þínu fólki. Láttu aðra sjá og heyra hvernig þú vilt sjá þitt samfélag. Taktu ákvörðun um að klára eða losna undan íþyngjandi og bindandi samningum í bönkum. Taktu ákvörðun í næstu kosningum um hvert á að ráðstafa skattfé. Taktu ákvörðun í komandi kjarabaráttu um hve mikinn pening við fáum til að eyða í það sem er okkur fyrir bestu – okkur sjálf!

namskeid