Listin að heyra

Untitled-1

Sagt er að 90% af “hegðunarvandamálum” sé vegna þess að unga fólkið vilji að fullorðnir hlusti á sig. Rannsóknir hafa sýnt að það sem unglingar í sjálfsmorðsáhættu þrá helst sé að fullorðnir hlusti á þau. Læknisfræðilegur máttur hlustunar hefur einnig verið sannaður í fjöldamörgum rannsóknum. Okkur líður öllum betur þegar við finnum að einhver hlustar á okkur. Og okkur líður enn betur þegar við finnum að einhver skilur okkur. En til þess að vera skilin, þarf einhver að kunna að hlusta. Oft er það mikilvægara að upplifa að einhver hlusti en að brugðist sé við og okkur „bjargað“. Og það skiptir engu máli hver þarf hjálp. Það er jafn sársaukafullt að finnast útilokuð eða misskilin, hvort sem við erum sex ára eða sextug.

Eins og með aðrar tilfinningalegar þarfir er þörfin að einhver hlusti nauðsynleg til þess að lifa og komast af. Við erum öll hvort öðru háð, með öðrum orðum, grunnþarfir okkar byggja á samvinnu við aðra. Við þurfum að vita og þekkja okkar eigin þarfir og eiga í samskiptum með þær. Við þurfum að kunna að segja hvernig okkur líður til að geta haft áhrif á aðstæður.

Tökum sem dæmi að þú sért farþegi í bíl með vini þínum. Þú verðum var/vör við að hann er að aka á ólöglegum hraða á þröngum vegi. Þú finnur til óöryggis. Þú segir vini þínum frá óþægindatilfinningunni en hann hlustar ekki á þig. Óþægindi aukast við þessa höfnun og getur auðveldlega orðið að miklum ótta vegna innilokunarkenndar og vanmáttar og stjórnleysis. Við fáum ekki að tjá tilfinningar okkar. Er erfitt að skilja hvers vegna við verðum pirruð, jafnvel reið ef það er ekki hlustað á okkur? Það sem við fáum með því að einhver heyri hvernig okkur líður er aukið öryggi, skilningur og virðing.

Við getum líka hlustað á okkur sjálf. Við getum æft okkur að “tala” við okkur sjálf og “heyra” í okkur sjálfum. Við getum viðurkennt eigin tilfinningar með því að hlusta á okkur. Við getum stoppað við hverja tilfinningu og spurt: af hverju er ég svona reiður? af hverju þori ég ekki að opna þetta bréf, eða svara símanum? Með því að læra að hlusta á okkur sjálf þá eignumst við verkfæri sem getur hjálpað okkur að taka betri ákvarðanir byggt á hvernig okkur líður. Og þetta verkfæri getum við notað á aðra. Við lærum að verða góðir hlustendur. Og það skilar sér til baka í því að aðrir upplifa einnig öryggi þegar einhver heyrir í þeim. Aðrir skynja skilning okkar og virðingu.

Thomas Gordon fjallar um virka hlustun í bók sinni Samskipti foreldra og barna (Æskan 1999). Leikreglurnar eru í raun einfaldar en mér þótti ekki auðsótt að tileinka mér og nýta þær. Grunnaðferðin er að hlusta fordómalaust og staðsetja undirliggjandi tilfinningar. Til þess að það sé mögulegt þarf að muna að fólk segir eitt en meinar annað. Virk hlustun þýðir því að við erum að hjálpa fólki að samþykkja eigin tilfinningar. Þeir sem leita til okkar og treysta okkur fyrir tilfinningum sínum eru að leita eftir svörum en þau eru ekki að leita eftir röksemdum. Þau eru annað hvort að leita eftir leiðum til að líða betur eða að fá staðfestingu á að þeim líði rétt. Við setjum okkur því alltaf í sæti rannsakanda og reynum að fá skýrari mynd á það sem aðrir eru að segja: “Hljómar eins og þú hafir orðið fyrir vonbrigðum með…” “Hvernig leið þér þegar…?”

Með þessu erum við að hjálpa viðkomandi að opna fyrir samtal um tilfinningarnar. Í framhaldi af því getum við hjálpað enn frekar með því fá skýrari mynd með því að spyrja og leggja áherslu á tilfinningar: “Mér heyrist þú vera reiður…” “Varðstu hræddur um…?” “Fékkstu hnút í magann?

Það ber þó að forðast að nota orð eins og “ég skil” og “ég veit hvernig þér líður” því skilningur okkar á tilfinningum er misjafn. Þegar elsti sonur minn var á þriðja ári þá sagði hann stundum “mér er heitt í maganum” þegar hann var svangur. Tilfinningin hans var alveg rétt en skilningur hans og túlkun á líðan sinni var að hans mati eins og að finna til hita. Þess vegna reynum við frekar að fá skýrari mynd af því sem fólk er að segja:

“Varðst þú móðgaður?” “Þolir þú ekki Gunnu?”

Það er merkilegt að þótt við segjum eitthvað sem er ekki rétt þá leiðréttir fólk okkur. Þau vilja að við skiljum hvað þau eru að segja. Palli segir “ég hata kennarann” og við spyrjum til baka “hatarðu kennarann, Palli minn?”. Palli svarar þá “nei, ég þoli ekki alla þessa heimavinnu”. Að “hata” kennarann er því ýkjur til að fá athygli á vanlíðaninni, þreytunni á endalausum heimaverkefnum.

Við getum líka hjálpað viðkomandi að halda sig við sama umræðuefni: “Hvað angraði þig mest?”

Við þurfum alltaf að gæta að því hvað við segjum og gerum. Líkamstjáning okkar getur dregið úr trausti, grettur, hrista hausinn og fleira sem gæti túlkast sem vandlæting dugar til að stoppa þessi viðkvæmu samskipti. Við verðum einnig að temja okkur þolinmæði og gæta þess að grípa ekki frammí. Við þurfum að forðast eins og heitan eldinn að setjast í dómarasæti og fella dóma á hvað aðrir segja. Við verðum að virða það að tilfinningar eru alltaf réttar, en upplifunin á þeim gæti hins vegar verið röng eða mistúlkuð. Jói gæti verið raunverulega hræddur við skrímsli sem hann sér í kvikmynd þótt það sé dagljóst að skrímslið sé uppspuni og óraunverulegt og geti engan skaðað. Óttinn er raunverulegur og Jói þarf að fá að tjá sig um það þótt það virðist kjánalegt.

Í greininni „Hvernig við forðumst óþægileg samskipti“ eru fjölmörg dæmi þess hvernig við meðvitað og ómeðvitað lokum á tilfinningar annarra. Kjánalegi óttinn fær ekki viðurkenningu þegar við svörum “Þetta er bara bíómynd, þetta er dúkka”. Hins vegar fær hinn hræddi ró ef við svörum “æj æj, varðstu hræddur?”. Þó verður að passa að svara ekki í vandlætingartón því hæðni er ekkert annað en að loka á og gera lítið úr tilfinningum annarra.

Gefðu þér og viðmælandanum tíma. Þolinmæði er kostur í virkri hlustun. Ég á ekki við að eyða tíma í að undirbúa svar heldur halda umræðunni á rólegum nótum. Margir hafa þann áhugaverða ávana að laumast í að gera eitthvað á meðan. Taka svolítið til, standa upp til að raða bókum, henda rusli og svo framvegis. Við sýnum fulla athygli og gerum ekkert annað en að hlusta. Smáorð eru vinsæl og mjög nytsöm. Orð eins og “uhu”, “aha”, “einmitt” og “já” eru góðar uppfyllingar. Ég á ekki við sjálfvirka uppfyllingu heldur að nýta þessi orð og sýna viðmælanda að við erum að hlusta.

Að lokum vil ég benda á að takmarkið er að hlusta á tilfinningar. Ekki gefa ráð og hugga með röksemdum. Jóa er alveg sama þótt skrímslið sé úr plasti. Staðreyndin plast hjálpar honum ekki að losna við óttann. Bestu áheyrendur einbeita sér að tilfinningum, ekki staðreyndum.

Að hlusta á aðra veitir þeim jákvæðar tilfinningar um traust, mikilvægi, virðingu, skilning og umhyggju.

panta-bok-fritt