Hvert fara peningarnir?

namskeid

Til þess að vita hvort við höfum efni á lífsgæðum okkar þá þurfum við að vita hvaða lífgæði við veljum og hvað við borgum fyrir þau. Við spyrjum okkur:  „Hvert fara peningarnir?“

Svarið er kannski ekki einfalt ef við erum ekki að fylgjast með daglegum fjármálum okkar og einmitt vegna þess að við fylgjumst ekki vel með þá eru peningar að fara í eitt og annað án þess að við veitum því athygli. Þess vegna mælum við með að allir skrái hjá sér hvert peningarnir eru að fara. Í verkefnabókinni Betri fjármál eru verkefni til að skrá útgjöld fyrir hverja viku, svokölluð fjárhagsdagbók. Þar skráum við niður í hvað við eyðum peningunum okkar. Skráningin er einföld. Við skráum allt sem við borgum fyrir. Þú getur sótt verkefnin og prentað út með því að smella HÉR.

Útgjöld okkar eru tvíþætt, föst útgjöld og dagleg útgjöld. Föst útgjöld eru fyrirfram ákveðnar greiðslur eins og húsnæðiskostnaður, afborganir lána, áskriftir, hiti, rafmagn, sími og internet.  Dagleg útgjöld er allur óreglulegur kostnaður eins og matur, föt, afþreying, samgöngur og þess háttar.

Markmiðið með því að skrá öll útgjöld er tvíþætt. Við fáum skýra mynd af því hvert við eyðum peningunum okkar og við fáum líka skýrari mynd á hvernig við hegðum okkur í fjármálum. Það er stressminnkandi að vita nákvæmlega hvað peningarnir okkar eru að gera. Vitneskjan mun einnig hjálpa til við að breyta venjum okkar í fjármálum. Við sjáum hvert peningurinn fer og spyrjum okkur:

Þurfa peningarnir að fara þangað?

Untitled-1