Fjármagn sem verkfæri, fjármagn sem lífsgæði

panta-bok-fritt

Fjármagn sem verkfæri

Fjármagn, almennt nefnt peningar, gegnir mikilvægu hlutverki í nútíma samfélögum. Sem verkfæri gegna peningar þrennu hlutverki. Þeir eru mælikvarði á verðmæti, geymslumiðill til að varðveita verðmæti og skiptimiðill eða gjaldmiðill í viðskiptum á verðmætum.

gullpeningarÁður fyrr voru peningar slegnir í mynt úr eðalmálmi eins og gulli eða silfri og héldu þannig verðgildi sínu. Nútímapeningar eru að litlu leyti reiðufé, mynt eða seðlar, heldur að mestu leyti veltiinnlán, innistæður á reikningum bankastofnanna og flest viðskipti fara fram með plastkortum. Það má því segja að nútímafjármagn sé ekki bundið verðmætum eðalmálma heldur trausti samfélagsins á peningum sem mælikvarða á verðgildi. Verðgildi peninga helst svo lengi sem þeir eru notaðir sem gjaldmiðill í viðskiptum. Peningar eru ekki verkfæri í bókstaflegum skilningi líkt og hamar, heldur er litið myndrænt á peninga sem verkfæri sem gerir okkur kleift að eiga í viðskiptum.

 Fjármagn sem lífsgæði

Almenna hugmyndin um fjármagn er að það sé verkfæri til að skipta með vörur og þjónustu. En fjármagn er meira en einfalt verkfæri til viðskipta. Fjármagn hefur samfélagslegt gildi. Einstaklingur nýtir tekjur sínar til að kaupa mat og aðrar nauðsynjar, greiða húsaleigu og annað sem hann telur til lífsgæða. Lífsgæðin eru öll þau verðmæti sem skipta einstaklinginn máli og gefur lífi hans gildi. Fjármagnið hefur hlutverk milliliðs í viðskiptum með lífsgæði.

Páll Skúlason prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands skiptir þessum lífsgæðum í þrennt. Fyrstu gæðin eru lífsnauðsynjar á borð við húsnæði, mat og fatnað sem hann kallar efnahagsverðmæti. Efnahagsverðmæti skiptast í raungæði og sýndargæði.

Önnur gæðin eru menningarverðmæti sem er allt sem gerir okkur gott og er skemmtun, veitir lífsfyllingu og tilfinningalega útrás.

Þriðju gæðin eru siðferðileg verðmæti, hegðun og samskipti við aðra, ákvarðanir, trú og vinátta.

Páll lýsir fátækt einfaldlega sem skorti á þessum lífsgæðum. Ástæðurnar telur hann annars vegar vera vandi við öflun lífsgæðanna og hins vegar hvernig þessum lífsgæðum er skipt á milli samfélagshópa. Páll segir að fátækt stafi ekki af efnahagslegum skorti heldur fyrst og fremst af stöðu hvers og eins í samfélaginu og hvernig samskiptum er háttað.

Einstaklingurinn hefur sterka þörf til þess að tilheyra og til að uppfylla hana reiðir hann sig á samfélag við aðra einstaklinga. Hluti af því að tilheyra er að vera samfélagslega viðurkenndur. Flestir geta nálgast þessa viðurkenningu með vinsældum (e.popularity) og áliti. Ef viðurkenning fæst ekki með vinsældum þá er hægt að hafa áhrif á samfélagið með öðrum hætti, til dæmis með peningum.

Í nútíma samfélögum hafa peningar samfélagslega stöðu vegna áhrifa sem þeir geta veitt. Þá er átt við að einstaklingar geta keypt vinsældir og álit með peningum eða eignum. Húsnæði, fatnaður, bílar og peningarnir sjálfir geta veitt einstaklingum vinsældir hvort sem viðkomandi er vel liðinn eða ekki.

Peningana er ekki nauðsynlegt að eiga til að öðlast þessi gæði og stöðu. Algengt er að taka lán til að greiða fyrir gæðin og hluti af starfsemi lánafyrirtækja er tileinkaður ýmsum neyslulánum. Skuldsetning einstaklinga er þannig einnig undir áhrifum frá þessum hvötum. Í Íslenskri rannsókn sem gerð var á ástæðum yfir-skuldsetningu einstaklinga á árunum 2007-2008 kom í ljós að magn og umfang skulda var undir áhrifum tilfinningalegra hvata á borð við efnishyggju og hugmynda fólks um hamingju.

Peningar geta ekki aðeins haft áhrif á lífsgæði, samfélagslega stöðu og vinsældir. Þeir geta haft bein áhrif á hegðun og líðan einstaklinga. Félagsleg einangrun og líkamlegur sársauki leiðir til aukinnar löngunar í pening og einstaklingur sem skortir pening er líklegri til að vera háður samþykki annarra. Upplifun einstaklinga breytist hins vegar á jákvæðan veg þegar þeir eiga eða ímynda sér að þeir eigi peninga og rannsóknir sýna að þeir standast frekar líkamlegt eða andlegt erfiði.

Í þessu samhengi eru peningar myndlíking hvata eða orku. Upplifunin um að hafa aðgang að þessari orku er hærra metin þegar einstaklingur stendur frammi fyrir ógnum og mótlæti en þegar hann er í jafnvægi. Þetta er trúlega vegna þess að orka eykur getuna til að ráða við aðstæður og dregur úr sársauka og þjáningu. Að tapa orku gerir á hinn bóginn einstaklinginn viðkvæmari sem gæti leitt til aukinnar þjáningar og sársauka.

Fjármagn hefur margvísleg áhrif á samfélag og einstaklinga. Fyrir utan hið augljósa viðskiptagildi getur fjármagn haft áhrif á líðan og hegðun einstaklinga. Þá virðist sem að samansem merki sé milli peninga og lífsgæða, vellíðunar og viðurkenningar samfélagsins á einstaklingnum. Skyndilausn undan vanlíðan sé því meiri peningur, hvort sem hann er eign eða tekinn að láni. Slíkar skyndilausnir leiða til yfirskuldsetninga og fjármálaavanda.

 2. hluti – Fjármálavandi

Heimildir

panta-bok-fritt