Af hverju vantar mig alltaf eitthvað nýtt?

panta-bok-fritt

Bílar hafa alltaf verið mikið áhugamál hjá mér. Frá unga aldri þegar ég fékk að gjöf hvern matchbox bílinn á fætur öðrum til þess að ég keypti mína fyrstu bíla og til dagsins í dag. Bílaáhuginn minn hefur alltaf haldið uppi hugmyndum um nýja draumabíla og í dag er minn draumabíl stór og sterklegur amerískur pallbíl.

Ég er ekki bóndi, smiður eða iðnaðarmaður sem hefur hagnýta þörf fyrir svo stóran bíl. Ég hef í raun og veru ekkert með pallbíl að gera. Þau fáu skipti sem ég hefði þörf þá gæti ég leigt kerru fyrir nokkur þúsund á næstu bensínstöð eða byggingavöruverslun.

Af hverju vantar mig þá stóran og eyðslufrekan pallbíl sem ég hef engin not fyrir? Af hverju þarf ég bíl sem passar ekki í bílastæði í miðbæ Reykjavíkur?

Álit annarra

Upplifun mín um að ég fái eitthvað nýtt uppfyllir gat í tilfiningum mínum. Bíllinn myndi setja mig á annan og hærri stall í samfélaginu og vinahópnum. Ég yrði álitinn meiri maður vegna þess að ég á stóran pallbíl.

Fyrir 12 árum síðan átti ég mjög góðan Skoda Octavia og hafði þá nýlega greitt upp bílalánið á honum. Dag einn fór ég með hann í smurningu í Heklu hf og á meðan ég beið þá fór ég að skoða bíla. Þar sá ég mjög fallegan Mitsubishi Pajero til sölu. Ég seldi Skoda og keypti þennan Pajero. Á leið minni frá bílasölunni á fína og þægilega jeppanum mínum ek ég fram hjá Kolsvörtum og gljáandi Audi sem var til sölu. Í gegnum huga minn flaug „Vá!! Hvað ég væri til í að eiga þennan Audi!!“.

Við erum eins og forrituð í að vilja meira og þegar við erum ófullnægð tilfinningalega, eitthvað holrúm innra með okkur, þá leitum við að einhverju sem við teljum að uppfylli það. Í mínu tilfelli  eru það bílar. Ég á mér minn ævilanga draum um að eiga fleiri og flottari bíla og þegar mér líður ekki vel, ég er óöruggur eða eirðarlaus þá dett ég í þennan draum. Ég skoða aðra bíla.

Engin uppfylling

Enginn bíll mun fylla upp í þetta holrúm, aldrei. Ég get hætt að leita í dag. Nýr bíll getur haldið mér uppteknum í nokkra daga og þá fer ég að finna fyrir holrúminu, gatinu inni í mér. Sama má segja um allt annað sem við kaupum, hvort sem það er farsími, föt, skór, bækur eða hús. Ekkert efnislegt getur fyllt upp í andlegar eyður nema í stutta stund.

Við þurfum að skoða viðhorf okkar og hugarfar. Við þurfum að horfa aftur í tímann og spyrja okkur af hverju við skortum eitthvað og af hverju við finnum holrúm innra með okkur. Við þurfum að auka sjálfstraust okkar.

Sjálfstraust

Það er bein tenging á milli lítils sjálfstrausts og fjárhagserfiðleika, til dæmis vegna þess að við eyðum okkar fé í að uppfylla þessi innri göt með bílum, farsímum, fötum, skóm, bókum eða húsi. Við eigum erfitt með að njóta þess sem við eigum og erum í sífeldri leit að því sem vantar.

Í grein á Vísindavefnum er farið yfir nokkur atriði sem hjálpa okkur að auka sjálfstraust:

  • Að leggja raunhæft mat á sjálfan sig: Læra að leggja raunhæft mat á sjálfan sig í stað þess að treysta eingöngu á mat annarra. Sjálfsskoðun gefur okkur innsýn í hver við erum, hvaða afleiðingar hegðun okkar hefur, hverjir okkar styrkleikar eru og hvað það er sem dregur úr þeim árangri sem við náum. Með því að einblína á hvað manni finnst um eigin árangur, frammistöðu og svo framvegis nær maður að bæta sjálfsöryggið auk þess sem maður gefur ekki öðrum vald yfir sér.
  • Að leggja áherslu á styrkleika sína: Sjálfsöryggi þýðir að maður sættir sig við takmarkanir sínar og er ánægður með það sem maður gerir vel, jafnvel þó að það sé ekki fullkomið. Mikilvægt er að leggja ekki of mikla áherslu á mögulega galla. Enginn er fullkominn, eða eins og Henry Ward Beecher orðaði það: „Þegar einhver segist vera fullkominn þá eru bara tveir staðir sem koma til greina: Himnaríki eða hæli.” Með því að leggja áherslu á það sem maður getur gefur maður sjálfum sér klapp á bakið fyrir að reyna frekar en að einblína aðeins á útkomuna.
  • Að taka áhættu: Reyna að nálgast nýja reynslu sem tækifæri til þess að læra og vaxa frekar en að láta óttann við að mistakast stjórna okkur. Með því að vera opinn fyrir nýjum möguleikum er hægt að auka sjálfsöryggi sitt. Við getum ekki verið góð í einhverju nema með því að æfa okkur og þora að taka við áskorunum. Mistök fylgja lærdómsferlinu og sá sem gerir engin mistök, gerir aldrei neitt.
  • Að nota uppbyggilegt sjálfstal: Tala á uppbyggilegan hátt við sjálfan sig sem svar við röngum hugmyndum og staðhæfingum og breyta þeim í raunhæfari staðhæfingar. Ef manni finnst maður til dæmis þurfa að gera allt fullkomið er gott að minna sig á að það er ekki hægt að ná fullkomnun og að það er aðeins hægt að gera eins vel og maður getur. Þar með viðurkennir maður sjálfan sig á meðan maður heldur áfram að reyna að bæta sig. Mikilvægt er að hafa í huga að takmarkanir þess sem hægt er að öðlast eru fáar og flestar eru þær sjálfskapaðar. Þær eru afleiðingar ótta og efa sem hindra okkur í að reyna. Trúin á eigin takmörk dregur úr okkur kjark, veldur því að við reynum ekki við viðfangsefnin og fær okkur til að sjá eitthvað sem er ekki sannleikanum samkvæmt.
  • Skýr markmiðasetning: Að ákveða markmið til skemmri og lengri tíma ásamt þeim skrefum sem þarf að taka til þess að gera markmiðin að raunveruleika. Að gera það sem í okkar valdi stendur til að ná markmiðunum, sjá til þess að við stefnum ávallt í rétta átt og veita árangrinum athygli. Skýr markmið skipta miklu máli ef við viljum hafa á tilfinningunni að við höfum stjórn á eigin lífi. Markmið og fyrirheit gefa lífi okkur stefnu. Að setja markmið er að ákveða hvaða árangri við viljum ná. Rannsóknir sýna að þeir sem ná miklum árangri í lífinu vita hvað þeir vilja, með öðrum orðum vita á hvaða mark þeir miða.

(http://www.visindavefur.is/svar.php?id=4771)

 

panta-bok-fritt