Af hverju gefst ég stundum upp?

Untitled-1

Margir taka ákvörðun um að snúa fjármálunum úr vanda í velferð. En einhverra hluta vegna þá þykir mörgum þeirra erfitt að fóta sig og halda uppi krafti og ákveðni og fyrir rest þá er allt komið í sama gamla ástandið. En þessi staða er ekki frábrugðin stórum hluta þjóðarinnar. Hin alræmdu áramótaheit þar sem fólk heitir því að snúa lífstílnum við og fara mörgum sinnum í viku í ræktina eða heitir því hætta að reykja, drekka eða hvað annað sem breyta á erfiði og óþægindum. Margir borga líkamsræktarstöðvum árskortið sitt löngu eftir að það gefst upp og mjög margir byrja aftur að reykja. Og eftir stendur spurningin “Af hverju get ég ekki breytt lífi mínu?”. Við erum ekki geðveik. Við erum ekki ólæknandi og ómöguleg. Við erum bara óvön því að taka svo miklum breytingum.

Það er ekki nóg að fatta að viðkomandi er of þungur og setja sér það markmið að verða 40 kílóum léttari. Það er ekki nóg að fatta að viðkomandi ógnar heilsu með reykingum og að það þurfi að hætta að reykja. Það er ekki nóg að vakna upp við að þú skuldar of mörgum of mikið og þú ætlir að verða skuldlaus. Rétt eins og sá sem ákveður að fara frá Reykjavík til Akureyrar þá er ekki nóg að vita að hann sé í Reykjavík og ætli til Akureyrar. Það þarf að tryggja að ökutækið komist þangað án þess að bila eða verða bensínlaust. Þetta er vandinn okkar. Við leggjum af stað í ökutæki sem kemst ekki á leiðarenda. Okkur skortir ekki viljann til þess að leggja af stað en við verðum bensínlaus eða eitthvað bilar á leiðinni.

Það er auðvelt að leggja af stað þegar adrenalínið streymir um líkamann. Viljinn er mikill og öflugur og verkið er auðveldara en við héldum. Við sýnum árangur og engar hindranir eru sýnilegar. En þessi vilji er ekki endalaus. Við þurfum að lifa lífinu og takast á við dagleg störf. Og við þreytumst, við finnum til álags og við verðum stressuð. Allt þetta dregur úr okkur kjark og vilja til að halda áfram. Og þegar við finnum að það gengur hægt að losna við aukakílóin eða borga niður skuldina þá finnum við til álagsins sem er framundan og það dregur úr okkur kraft og viljann. Hér gefast margir upp. Eins og vinur okkar á leið til Akureyrar finnur til einmanaleika á langri ferð. Þegar bíllinn verður bensínlaus gefst hann upp og fær far í bæinn.

Launsin hér væri að fá meira bensín og halda áfram. Taka með sér farþega svo ferðin verði skemmtileg og hafa síma til að hringja eftir hjálp þegar við getum ekki leyst vesen sem kemur upp.

Sama á við um okkur skuldarana. Við þurfum að finna vini sem eru að stefna að sama markmiði svo ferðalagið verði skemmtilegt. Tala við fólk sem hefur verið í sömu stöðu og fá þannig stuðning, álit og hvatningu. Þetta er vinurinn sem við tökum með í “ræktina”. Hvatning og ráðlegging er fyrir marga eins og að fá lánaðan vilja til að framkvæma.

Við þurfum að tileinka okkur góðan svefn og hollan mat. Nægur svefn er besta meðalið gegn álagi og stressi og hollur matur er það besta sem líkami okkar getur fengið. Slaka á kaffidrykkju og fá sér vatn. Vera vakandi fyrir því hvað er gott fyrir okkur. Svona verðum við ekki bensínlaus á leiðinni.

Og við þurfum að vita hvar sérfræðingarnir eru þegar við stöndum frammi fyrir erfiðum ákvörðunum og við verðum að geta notað þá. Þeir eru einkaþjálfararnir okkar. Þeir lyfta ekki lóðunum fyrir okkur en þeir passa að við slösum okkur ekki og að við náum árangri.

Lífið mun halda áfram í kringum okkur með sínu stressi og álagi og mun ekkert gefa eftir þótt við tökum erfiðar ákvarðanir. Sumir dagar eru miklu erfiðari en aðrir og það verður erfitt. Við þurfum að gera ráð fyrir þreytunni og við verðum að virða hana. Þess vegna verðum við að geta stoppað og hvílt okkur, safna kröftum og ná áttum. Svo höldum við ótrauð áfram.

Það er mikilvægt að vita hvar við erum stödd og setja sér skýr markmið. En það er mikilvægast að hafa kraft og vilja til að komast alla leið.

bok-ofan-post