Að safna fyrir nýju barni

bok-ofan-post

Í fréttum RÚV var á dögunum fjallað um að foreldrar hafi ekki efni á að vera í fæðingarorlofi og að búið sé að eyðileggja fæðingarorlofssjóð. Að mínu mati er þessi umræða á villigötum.

Barnaeignir og uppeldi barna er vissulega viðbættur kostnaður og framlag ríkis til nýbakaðra foreldra er nauðsynlegt til að veita þeim tækifæri til að vera heima og byggja tengsl og öryggi við barnið fyrstu vikur og mánuði þess. Og það er mikill stuðningur að báðir foreldrar séu heima. En umræðan um að styrkur fæðingarorlofs hafi ekki fylgt launaþróun og að foreldrar nái ekki endum saman á meðan þau séu í fæðingarorlofi bendir til þess að foreldrar séu ekki að undirbúa barnaeignir fjárhagslega.  Barnaeignir eru ekki óvænt fjárútlát eða óvæntur tekjumissir.

Það er af þessum ástæðum sem við verðum að hugsa fram í tímann þegar von er á nýjum einstaklingi í heiminn.  Hugmyndafræði Skuldlaus.is byggir á fimm spurningum. Fyrsta spurningin „hvaðan koma peningarnir?“ á ekki aðeins við um núlíðandi mánuð, heldur einnig inn í framtíð. Þegar við uppgötvum að við eigum von á barni þá höfum við nokkra mánuði til þess að bregðast við. Við höfum tíma til að spara og breyta útgjöldum og mörg okkar hafa tíma og tækifæri til að vinna aukavinnu. Við aðlögum okkur að því sem verða vill.

Við eigum að safna fyrir barni. Rétt eins og við spörum pening og söfnum fyrir nýjum bíl, fötum, farsíma eða utanlandsferð þá söfnum við fyrir börnunum okkar. Og við byrjum mörgum árum áður en þau fæðast.

Fjárhagslegt öryggi fæst með því að horfa fram á veginn og skipuleggja.  Við gerum ekki aðeins ráð fyrir tímabundinni tekjulækkun heldur að útgjöld þurfi að lækka líka. Fæðingarorlof er tímabundin staða og tekjur eru líklegar til að vera sem áður þegar því líkur. Það er auðveldara að hagræða tímabundið í rekstri heimilisins fyrir þetta tímabil. Þrennt mun helst hjálpa við að spara og undirbúa sig á ódýrari hátt. 1) Spurðu vini og ættingja. Oft eru barnavörur og föt til í geymslu handa frænku eða frænda  sem eru að eignast barn. 2) Leitaðu að notuðu. Flestar vörur sem við þurfum vegna barns má kaupa notaðar, svo sem rúm, föt, og leikföng. Ungbarnaföt eru sjaldan rifin eða snjáð og því kjarakaup í notuðum barnafötum. Sama má segja um rúm og leikföng. 3) Gerðu ráð fyrir tekjulækkun og byrjaðu strax að lækka útgjöld þótt fæðingarorlofið sé ekki hafið. Allan aukapeninginn skaltu geyma og spara fyrir fæðingarorlofstímabilið.

Á vef Fæðingarorlofssjóðs má finna reglur sem gilda um fæðingarorlof, hverjir eiga rétt, og hve háar greiðslurnar geta orðið að hámarki. Þar eru einnig reiknivélar til að reikna áætlaða upphæð fæðingarorlofs. Þar má sjá hver tekjuskerðingin verður.

Þegar við vitum tekjuskerðingu okkar er hægt að endurskoða útgjöld heimilisins og velja úr útgjöldunum það sem má geyma fyrsta árið í lífi barns. Þannig lækkum við útgjöld og komum á meira jafnvægi á milli tekna og útgjalda.

Safnaðu fyrir börnunum þínum. Byrjaðu strax að safna um leið og ákvörðun um að reyna að eignast barn er tekin. Byrjaðu að hagræða í daglegum rekstri um leið og vitað er að getnaður hefur orðið.

Nýfædd börn eru það fallegasta og mikilvægasta í lífi foreldra. Ekki láta fjármálin hafa áhrif á það.

 

Hlekkir á fréttir RÚV um fæðingarorlof: Ná ekki endum saman í fullu fæðingarorlofi og Búið að eyðileggja fæðingarorlofskerfið

namskeid