Að ná endum saman

panta-bok-fritt

Heit umræða hefur verið í samfélaginu um erfiðleika við að ná endum saman. Háværar raddir gagnrýna hve stór hópur samfélagsins þarf að lifa við of hátt verðlag og lágar tekjur. Þegar hópurinn stækkar og hinn almenna vinnandi borgara fer að skorta lífsgæði þá vex óánægjan eins og við þekkjum vel í dag.

Sú lausn sem við kunnum til að bregðast við þessum hækkunum er krafa um hærri laun. Í sögulegu samhengi er sú hegðun okkar vel sýnileg. Þegar útgjöld hækka og hækka þar til við erum farin að skerða lífsgæði okkar finnum við skortinn og þá fer af stað þrýstingur á auknar tekjur. Þegar það er orðið sérstaklega erfitt að standa undir lágmarks lífsgæðum okkar þá látum við í okkur heyra og ef allt þrýtur förum við í verkfall þar til um semst og við fáum hærri tekjur.

Það er vissulega rökrétt að auka tekjur og fá mannsæmandi laun til að geta mætt hækkuðu matarverði og almennt hækkun á öllum útgjöldum, en sögulega séð hefur í hvert sinn sem laun hækka í landinu farið af stað bylgja verðhækkana og verðbólga sem á stuttum tíma setur okkur oftar en ekki í sömu spor.

Hvert fara peningarnir?
Hvert mannsbarn sækir sín lífsgæði með útgjöldum og allir þurfa að mæta sömu útgjöldum. Öll þurfum við mat, föt og húsnæði og öll viljum við að bæta hug og lund með alls kyns afþreyingu.

Tekjur og útgjöld mynda báðar hliðar fjármála okkar og á meðan við verjum aðeins aðra hliðina þá er sótt að okkur frá hinni. Þess vegna er nauðsynlegt að mæta hækkunum á útgjöldum með aukinni neytendavernd.

Lausnin er að horfa á hvert peningurinn fer. Einföld ráð eins og yfirlit yfir öll útgjöld og að nota innkaupalista geta fært okkur allt að 30 prósenta lækkun á útgjöldum. Það er miklu meiri kjarabót en launahækkanir almennt færa okkur. Þegar við sem heild veljum að sniðganga kostnaðarsamar vörur og heimtum lægra verð fyrir þær þá breytum við verðlagi, sem hefur áhrif á okkur öll.

Íslendingar eru ekki kröfuharðir neytendur
Okkur hefur verið kennt að til þess að eignast vörur þá tökum við lán og greiðum þannig ekki bara uppsett verð heldur kostnað þar ofan á. Kaupmenn, þjónustusalar og atvinnurekendur hafa síðan lært inn á hve léleg almenn neytendavakt er á Íslandi og við lélegir verðmótmælendur. Það virðist vera lítið loft í okkur gagnvart verðhækkunum. Mér er minnistætt þegar vörubílstjórar mótmæltu hækkuðu eldsneytisverði árið 2008 en þá stóðu aðrir eldsneytiskaupendur ekki lengi með þeim. Að því er virtist gátum við ekki tekið höndum saman og varið útgjöldin.

Ástæða alls þessa er að við kunnum lítið eða ekkert að vernda útgjöldin okkar. Meira en helmingur þjóðarinnar hefur ekkert yfirlit og eftirlit með sínum eigin útgjöldum og þess vegna er eðlilegt að við séum ekkert að hugsa um almenna neytendavernd. Þegar við erum ekkert að skoða verð og hvað við gerum við peninginn okkar geta kaupmenn nánast selt okkur hvað sem er á hvaða verði sem er.

Það er til lausn
Skuldlaus.is selur verkefnabókina Betri fjármál, sem er fræðsluefni á íslensku sem hjálpar þér að taka fyrstu skrefin í átt að hagsæld. Bókin veitir þér vitneskju og yfirlit yfir fjármálin, hvernig við setjum markmið og lærum góða hegðun í fjármálum.

Ávinningurinn af góðu yfirliti og skynsömum innkaupum er ekki bara lægra vöruverð til heimilisins heldur mun það hafa áhrif á allt samfélagið. Líkur á verðbólgu minnka og lífsgæðin batna jafnt yfir alla. Hver veit nema að góð verðvernd á húsnæðismarkaði snúi stöðunni úr græðgissjónarmiðum sem ýta upp húsnæðisverði yfir í að leiga og sala á húsnæði verði að þjónustuiðnaði við íbúa landsins.
Að bæta fjármálin þín er þinn hagur.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 3.09.2015

Untitled-1