Að hafa vaðið fyrir neðan sig

bok-ofan-post

Kæri banki, vinsamlegast athugaðu:Núna er rétti tíminn fyrir okkur að hafa í huga orðatiltækið Að hafa vaðið fyrir neðan sig.

Peninganna menn eru meðvitaðir viðskiptamenn í viðskiptum við okkur ómeðvitaða fólkið. Þeir eru meðvitaðir um allar sína reglur og verklag og vinna eftir þeim. Við hins vegar erum á öðrum stað í viðskiptunum. Á meðan við erum undir pressu, óttaslegin um afdrif okkar og samningsstöðu þá munum við ekki hugsa alveg skýrt og munum ekki hafa vaðið fyrir neðan okkur.

Á sama tíma og heimur fjármálastofnananna er flókinneru  fjármál okkar ekki flókin bókhaldslega séð.  Við flækjum okkar mál með því að draga tilfinningarnar okkar í þau. Við missum einbeitingu uppfull af ótta eða vanmætti og jafnvel þorum ekki að leita eftir aðstoð hjá þeim sem við treystum.

En hvernig getum við þá haft vit fyrir okkur í ógnandi viðskiptaheimi?

Sem betur fer þurfum við ekki „fimm háskólagráður“ til að standa í þessu. Þetta hefur ekkert að gera með menntun og/eða kunnáttu um fjármálaviðskipti.

Við viðurkennum að þó við höfum ekki menntun og kunnáttu, þá höfum við vit á að sækja aðstoð.   Og með því að aftengja tilfinningarnar, þá getum við óhrædd haft vitið fyrir okkur.

Hér eru nokkur einföld trix:

 1. Safnaðu upplýsingum um stöðu þína Í DAG. Biðja um afrit af öllum stafestum gögnum sem þú hefur skrifað undir. Fáðu svokallað FE yfirlit. Ef þú ert búinn að greiða af lánum í einhvern tíma þá óskarðu eftir að fá útskrift af sundurliðaðri greiðslusögu allra lána. Fáðu afrit af öllum samningum og fylgiskjölum. Því meira sem þú getur fengið af yfirlitum, því betrra.
 2. Fáðu lánaða dómgreind. Sýndu öðrum sem þú treystir öll gögnin. Hver fjölskylda á alltaf alla vega einn sem er snjall í fjármálum. Það kemur á óvart að oft er það níski leiðinlegi frændinn sem hefur vit fyrir sér í þessum málum. Einnig eru til lögfróðir menn og konur sem geta hjálpað., Get líka bent á hópa eins og Hagsmunasamtök Heimilana eða DA samtökin. Þar er fólk sem getur skoðað gögnin með þér. Betur sjá augu en auga.
 3. Hafðu einhvern með þér. Alltaf þegar þú á bein samskipti við fjármálastofnanir hafðu einhvern með þér sem er ekki beintengdur málinu. Einhvern sem getur fylgst með og hlustað, helst tekið glósur. Að fá að taka upp fundi er ekkert feimnismál. Þetta eru bara viðskipti.
 4. Eigðu samskiptin skjalfest. Öll þín samskipti við fjármálastofnanir eiga að vera skjalfest á einhvern hátt. Hafðu til dæmis samband með tölvupósti með öll þín mál. Ef þú átt bein samskipti, sendu viðkomandi starfsmanni fundargerð og óskaðu eftir staðfestingu á að þetta fór ykkar á milli.
 5. Fáðu tilboð. Þegar þú veist stöðu þína gagnvart stofnuninni og ert tilbúinn til viðskipta, skaltu óska eftir skriflegu tilboði. Mundu að þú ert bara að biðja um TILBOÐ, ekkert annað.
 6. Farðu með tilboðin heim. Heltu þér upp á te og reiknaðu sjálfur, og þáðu aðstoð við að skilja betur hvað þú ert með í höndunum. Lestu ALLA skilmála, og yfirstrikaðu ALLT sem þú skilur ekki. Stofnunin á að upplýsa þig, svo þú getur pantað annan fund bara til þess að spyrja þessara spurninga.
 7. Spurðu spurninga. Og ekkert vera með feimni. Hér eru þínir hagsmunir í húfi. Spurðu um allt sem þú skilur ekki. Ef þú skilur ekkert, spurðu um allt. Sá sem kemur með þér á fundi getur skoðað allt með þér.  Spurðu líka að minnsta kosti þrjá í þínum vina- og fjölskylduhóp.  Fáðu fulla vitund.
 8. Gerðu gagntilboð. Stundum eru vextir óhagstæðir eða lánakjör slík að þú munt ekki ráða við af viti, og því er eðlilegt að gera þeim gagntilboð sem þú getur ráðið við.
 9. Hafðu ábyrgðarmenn þína með í ráðum. Þitt besta vopn núna er vitneskja. Ef þú þarft ábyrgðarmenn, skaltu bjóða þeim allar upplýsingar um þig og þín fjármál. Ekki vera feimin/n. Þetta mun aðeins byggja traust ykkar á milli, og þeir gætu jafnvel hjálpað þér að gera betri viðskipti..
 10. Aldrei skrifa undir neitt ef þú ert í ótta, vanmætti eða slíkum þrengjandi tilfinningum.Taktu gögnin frekar með þér heim aftur og fáðu aðstoð við að lesa þau og skilja enn betur.
 11. Aldrei skrifa undir neitt sem þú hefur ekki kynnt þér. Ef einhverjum spurningum er ósvarað, ekki skrifa undir.
 12. Aldrei láta pressa þig. Aldrei láta pressa þig. Hvorki starfsmenn stofnunnar, vinir, fjölmiðlar, né þínar eigin tilfinningar eiga að láta þér líða eins og undir pressu.. Ef þú finnur pressu farðu heim og fáðu þér te.

Þetta er ferli sem getur tekið tíma og fyrirhöfn. En ef þú getur sparað þér milljónir, jafnvel fátækt eða gjaldþrot, hvaða máli skipti þótt þú eyðir mörgum klukkutímum í að spyrja starfsmenn þessara stofnanna allra spurninganna.

*Mundu að þú ert að óska eftir þjónustu. Taktu þinn tíma í að skilja allt áður en þú skrifar undir*

Untitled-1